From Wikipedia, the free encyclopedia
Residenz er heiti á höll biskupana í borginni Würzburg í Þýskalandi sem þeir reistu sér sem aðsetur síðla á 18. öld. Höllin er á heimsminjaskrá UNESCO.
Allt frá því er keisarinn Friðrik Barbarossa gerði biskupana í Würzburg að furstum árið 1168, bjuggu biskuparnir í kastalavirkinu Marienberg fyrir ofan borgina. En á 18. öld þótti virkið ekki lengur nógu fínt fyrir fursta og því ákvað biskupinn Jóhann Filippus að reisa glæsihöll í borginni sjálfri. Framkvæmdir hófust 1719, en Jóhann dó 1724. Eftirmaður hans, von Hutten, lét því aðeins reisa litla álmu og flutti inn í litla íbúð þar.
Eftirmaður hans, Friðrik Karl, lét reisa næstu álmur 1729-1744 og flutti í nýja glæsiíbúð í suðurálmunni þegar hún varð tilbúin. Hann lét einnig innrétta kirkju í höllinni (Hofkirche). Á hans tíð voru móttökusalir og veislusalir smíðaðir. Höllin var fullkláruð að utan á gamlársdegi 1744. Ekki var frekar unnið að innréttingum meðan hann lifði, né meðan eftirmaður hans lifði.
Í biskupatíð Karls Filippusar voru allar innréttingar fullkláraðar. Salirnir voru skreyttir, veggir og loft málaðir með freskum. Ítalski listmálarinn Giovanni Battista Tiepolo var fenginn til að mála loftmynd í tröppugangi hallarinnar, sem enn í dag er stærsta samhangandi loftmynd heims. Ýmsir aðrir listamenn komu við sögu, aðallega frá Ítalíu og Þýskalandi. Á meðan fóru fram biskupaskipti. Nýi biskupinn hét Adam Friðrik. Hann lét fullklára allar skreytingar. Síðustu framkvæmdum lauk 1779. Höllin var þá ein stærsta og merkasta barokkhöll Suður-Þýskalands.
Eftir að höllin var fullkláruð var hún aðsetur biskupanna í aðeins 22 ár í viðbót. 1803 var furstabiskupadæmið lagt niður. Þeim var gert að flytja út. Höllin skipti nokkru sinni um eigendur næstu árin. Í fyrstu bjó þar Ferdinand III af Habsborg. Napoleon átti tvisvar leið um Würzburg á þessum tímum. Honum fannst lítið til hallarinnar koma og uppnefndi hana ‘fegurstu prestahöll Evrópu’ (schönster Pfarrhof Europas). Würzburg var innlimuð Bæjaralandi og notuðu bærísku konungarnir höllina gjarnan sem dvalarstað. Í loftárásum 16. mars 1945 stórskemmdist höllin. Hliðarálmurnar brunnu nær alveg út, en miðhúsið slapp betur. Tröppugangurinn frægi með loftmyndinni slapp einnig, sem og nokkrir af stóru sölunum. Þegar Bandaríkjamenn hertóku borgina, var meðal þeirra herforingi sem bar mikið skynbragð á menningarverðmæti. Hann lét þétta veggi og þök til að vernda bygginguna fyrir veðri og vindum. Viðgerðir og endurreisn hófust þó seint og miðaði hægt áfram. Þeim lauk í fyrstu árið 1987, en var þó ekki að fullu lokið fyrr en 2006, rúmlega 60 árum eftir loftárásina. 1981 var höllin í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO. Það er safn í dag, þar sem bæði fastar sýningar eru og farandsýningar. Árlega fer fram Mozart-hátíð í höllinni.
Þar sem höllin er á nokkrum hæðum var reistur víðáttumikill tröppugangur upp á efri hæðir. Loftið í tröppuganginum var málað með fresku af ítalska listamanninum Tiepolo frá Feneyjum. Freskan varð stærsta loftmynd heims og svo er enn. Hún er 670 m² að stærð og það tók Tiepolo tæp tvö ár að mála hana. Myndin sýnir í hnotskurn þáverandi biskup, Karl Filippus, fljúga yfir heiminn, meðan íbúar heimsálfanna hylla hann. Meðal íbúa Evrópu koma Tiepolo sjálfur fyrir, ásamt fyrsta byggingameistara hallarinnar, Balthasar Neumann. Skizzan sem Tiepolo notaði fyrir verk sitt er enn til. Hún er geymd til sýnis í Metropolitan Museum í New York. Laun Tiepolo fyrir verk sitt námu 15 þús gyllini, sem samsvaraði 13földum árlaunum byggingameistarans Neumann. Þjóðsagan segir að kollegar Neumanns hafi hlegið yfir stærð tröppuhússins og veðjað á að þak þess myndi hrynja strax og stuðningssúlurnar væru fjarlægðar. Neumann veðjaði til baka að þeir gætu skotið úr fallbyssum við hlið hallarinnar. Þakið mundi jafnvel standast höggbylgjurnar. Veðmál þetta endaði með jafntefli. Þakið hélst uppi, en ekki fékkst leyfi fyrir að skjóta úr fallbyssum á lóð hallarinnar. Þegar höggbylgjur frá loftárásinni 1945 lenti á höllinni, ásamt braki, hélst þakið engu að síður uppi. Segja má að þar með hafi Neumann unnið veðmál sitt.
Biskupinn Jóhann Filippus ákvað að láta reisa kirkju innan í höllinni. Hún var ekki í frumteikningunum og því erfitt að koma henni við. Byggingameistarinn Balthasar Neumann varð einnig að viðhalda eðlilegu og samstæðu útliti að utan. Hann ákvað því að kirkjan fengi sömu tegundir glugga og höllin sjálf. Veggjamegin hengdi hann upp víðáttumikla spegla til að endurvarpa sólarljósinu. Kirkjan sjálf varð öll hin glæsilegasta. Mýmargar skrautsúlur eru til beggja hliða. Salurinn er um 20 metra hár og er allur skreyttur styttum og tveimur stórum hringlaga málverkum á sitthvora hlið. Málverkin sjálf voru máluð af Tiepolo. Eitt þeirra sýnir himnaför Maríu mey, hitt sýnir fall Lúsífers (kölska).
Nokkrir stórir salur eru í höllinni. Þeirra helstir eru Hvíti salurinn, Keisarasalurinn og Speglasalurinn. Tveir fyrrnefndu salirnir skemmdust til þess að gera lítið í loftárásinni 1945 og eru þeir jafnfagrir í dag eftir nokkrar endurbætur. Speglasalurinn var dýrasti salur hallarinnar. Salurinn brann hins vegar að hluta 1945 og bráðnuðu þá umgjarðir speglanna, sem féllu niður og brotnuðu. Salurinn var ekki endurgerður fyrr en 1979. Þá voru 600 speglar sett upp á ný og þeir skreyttir.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.