Rómverska lýðveldið var tímabil í sögu Rómaveldis sem einkenndist af afar flóknu stjórnarfari sem skilgreint hefur verið sem lýðveldi. Ríkjandi valdastofnun innan lýðveldisins var rómverska öldungaráðið sem skipað var í af virtustu og ríkustu valdaættum Rómar. Lýðveldið hófst með falli konungdæmisins 510 f.Kr. og stóð þar til það breyttist, eftir röð af borgarastyrjöldum, í keisaradæmi á 1. öld f.Kr. Hvenær það gerðist er ekki alveg ljóst en algengt er að miða við annað hvort árið þegar Júlíus Caesar var kjörinn alræðismaður ævilangt 44 f.Kr., orrustuna við Actíum 31 f.Kr. eða árið 27 f.Kr. þegar öldungaráðið veitti Octavíanusi titilinn „Ágústus“.

Thumb
Rómverska lýðveldið á tímum Júlíusar Caesars.

Saga

Rómverska lýðveldið var stofnað um 509 f.Kr., samkvæmt því sem seinni tíma höfundar á borð við Lívíus segja, eftir að Tarquinius drambláti, síðasti konungur Rómar, hafði verið hrakinn frá völdum. Rómverjar ákváðu þá að koma á kerfi þar sem valdhafarnir voru kjörnir í kosningum. Enn fremur voru ýmsar ráðgjafasamkundur og þing stofnaðar. Mikilvægustu embættismennirnir voru ræðismenn („konsúlar“), sem voru tveir og kjörnir til eins árs í senn. Þeir fóru með framkvæmdavaldið í formi imperium eða herstjórnar. Ræðismennirnir kepptu við öldungaráðið, sem var upphaflega ráðgjafasamkunda aðalsins, eða „patríseia“, en óx bæði að stærð og völdum er fram liðu stundir. Meðal annarra embættismanna lýðveldisins má nefna dómara (praetor), edíla og gjaldkera (quaestor). Í upphafi gátu einungis aðalsmenn gegnt embættum en seinna gat almúgafólk, eða plebeiar, einnig gegnt embættum.[1]

Rómverjar náðu hægt og bítandi völdum yfir öllum öðrum þjóðum á Ítalíu-skaganum, þar á meðal Etrúrum. Síðasta hindrunin í vegi fyrir algerum yfirráðum Rómverja á Ítalíu var gríska nýlendan Tarentum, sem leitaði aðstoðar hjá Pyrrhusi konungi frá Epírus árið 282 f.Kr., en mótstaðan var til einskis. Rómverjar tryggðu yfirráð sín með því að stofna eigin nýlendur á mikilvægum stöðum og héldu stöðugri stjórn sinni á svæðinu.

Thumb
Gaius Marius, rómverskur herforingi og stjórnmálamaður sem endurskipulagði rómverska herinn.

Á síðari hluta 3. aldar f.Kr. kom til átaka milli Rómar og Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu af þremur. Í kjölfarið náði Róm tryggri fótfestu utan Ítalíu-skagans í fyrsta sinn, fyrst á Sikiley og Spáni en seinna víða annars staðar. Róm breyttist í stórveldi. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. urðu Rómverjar valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið.

Thumb
L. Cornelius Súlla

Yfirráð yfir fjarlægum þjóðum leiddi til deilna í Róm. Öldungaráðsmenn urðu ríkir á kostnað skattlandanna en hermenn, sem voru flestir smábændur, voru að heiman lengur og gátu ekki viðhaldið landi sínu. Enn fremur var æ meira um ódýrt vinnuafl í formi erlendra þræla sem vinnandi stéttum gekk erfiðlega að keppa við. Hagnaður af herfangi, kaupmennska í nýju skattlöndunum og skattlagning skóp ný tækifæri meðal lægri stétta en ríkir kaupmenn mynduðu nýja millistétt, riddarastétt. Riddarastéttin hafði meira fé milli handanna en var enn talin til plebeia og hafði þess vegna mjög takmörkuð pólitísk völd. Öldungaráðið kom ítrekað í veg fyrir mikilvægar umbætur í jarðamálum og neitaði að gefa riddarastéttinni eftir nein völd. Sumir öldungaráðsmenn komu sér upp sveitum ólátabelgja úr röðum atvinnulausra fátæklinga, sem þeir notuðu til að hrella pólitíska andstæðinga sína og hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Ástandið var sem verst seint á 2. öld f.Kr. á tímum Gracchusarbræðra, þeirra Gaiusar Gracchusar og Tíberíusar Gracchusar, sem reyndu að setja lög um endurskiptingu jarðnæðis í ríkiseigu handa plebeium. Báðir voru drepnir en öldungaráðið féllst um síðir á sumar af tillögum þeirra og reyndi þannig að lægja óánægjuöldur meðal lægri stéttanna.

Bandamannastríðið svonefnda braust út árið 91 f.Kr. þegar bandamenn Rómverja á Ítalíuskaganum fengu ekki borgararéttindi. Það stóð til ársins 88 f.Kr.. Endurskipulagning Gaiusar Mariusar á rómverska hernum varð til þess að hermenn sýndu oft herforingja sínum meiri meiri tryggð en borginni. Valdamiklir herforingjar gátu náð kverkataki á bæði öldungaráðinu og borginni. Þetta leiddi til borgarastríðs milli Mariusar og Súllu sem endaði með einveldistíð Súllu 81-79 f.Kr.[2]

Thumb
Pompeius Magnus.
Thumb
Gaius Júlíus Caesar.

Um miðja 1. öld f.Kr. mynduðu þeir Júlíus Caesar, Pompeius og Crassus með sér leynilegt bandalag um stjórn ríkisins, hið svonefnda fyrra þremenningasamband. Þegar Caesar hafði náð Gallíu undir rómversk yfirráð leiddi árekstur milli hans og öldungaráðsins til annars borgarastríðs, þar sem Pompeius stjórnaði herjum öldungaráðsins. Caesar hafði sigur og var gerður einvaldur (dictator) til lífstíðar.[3] Árið 44 f.Kr. var Caesar ráðinn af dögum af hópi öldungaráðsmanna sem voru mótfallnir einveldi Caesars og vildu koma á löglegri stjórn að nýju. Það mistókst en í kjölfarið varð til síðara þremenningasambandið með samkomulagi milli Oktavíanusar, erfingja Caesars, og tveggja fyrrum stuðningsmanna Caesars, Marcusar Antoniusar og Lepidusar og skiptu þeir með sér völdunum. Þetta bandalag leystist fljótt upp og varð til þess að Oktavíanur og Marcus Antonius kepptust um völd. Þegar skarst í odda með þeim sigraði Oktavíanus Marcus Antonius og Kleópötru Egyptalandsdrottningu í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr.

Í kjölfarið varð Oktavíanus óumdeildur valdhafi Rómar, og þótt að nafninu til hafi hann einungis gegnt ýmsum embættum rómverska lýðveldisins var hann þó í raun nokkurs konar einvaldur allt til æviloka. Hann hélt völdum í yfir fjóra áratugi og mótaði á þeim tíma vald keisarans. Venjan er að telja Oktavíanus fyrsta keisarann og miða upphaf keisaratíðar hans við árið 27 f.Kr. er samkomulag náðist milli hans og öldungaráðsins um völd hans en öldungaráðið veitti honum að því tilefni virðingarheitið Ágústus.

Neðanmálsgreinar

Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.