Tegund af lindýri From Wikipedia, the free encyclopedia
Kræklingur (fræðiheiti: Mytilus edulis) einnig nefndur bláskel, krákuskel eða kráka er samloka af ætt sæskelja. Hann er algengur í fjörum á kaldtempruðum svæðum bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Við Ísland er kræklingur algengur alls staðar kringum landið nema við suðurströndina. Kræklingur þrífst vel við árósa og myndar sums staðar þéttar breiður. Kræklingur er algengastur í fjörum en finnst einnig neðan fjörunnar eða allt niður í 30 - 40 metra dýpi. Yfirleitt festa kræklingar sig við undirlag með spunaþráðum en ef undirlagið er mjúkt þá festa þeir sig hver við annan og mynda klasa sem liggja lausir á botninum.
Skeljar kræklings eru tvær. Þær eru þunnar með hvössum röndum. Skeljarnar tvær eru tengdar saman á hjör sem hefur 1 - 4 litlar griptennur. Fullorðnar skeljar eru blásvartar á ytra borði en ungar skeljar eru brúnleitar. Innra borð skeljanna er bláhvítt. Oft eru hrúðurkarlar og mosadýr á skeljunum. Kræklingur festir sig með spunaþráðum. Stærsti kræklingur sem veiðst hefur við Ísland var 11 sm að lengd og 133 gramma þungur.
Möttull klæðir skeljarnar að innan og stjórnar inn og útstreymi vatns í möttulholið, dælir sjó gegnum tálknin og gefur frá sér kalk til að mynda og gera við skel. Kræklingur sem er 50 - 55 mm langur dælir 4 lítrum af sjó á klukkustund. Í möttulinn safnast forðanæring og í honum eru kynkirtlar. Tálknin liggja undir möttlinum, þau sjá um öndun og sía fæðu úr sjónum sem fer í gegnum þau. Kræklingur hefur tvo samdráttarvöðva og er hlutverk þeirra að opna og loka skeljunum og halda þeim lokuðum. Hreyfitæki kræklinga er fóturinn. Hann er yfirleitt dökkbrúnn. Víð fótinn eru kirtlar sem framleiða spunaþræðina sem dýrið notar til að festa sig við fast undirlag eða við hvort annað. Kræklingur er sérkynja, kvendýrin má þekkja á því að þau hafa appelsínugula kynkirtla en kynkirtlar karldýra eru rjómagulir.
Kræklingur verður kynþroska á fyrsta ári. Kræklingur hrygnir á vori eða sumri. Kvendýrin hrygna 5 - 12 milljónum eggja. Frjóvgun verður í sjónum þegar sæðisfruma hefur synt egg uppi og sameinast því. Úr frjóvguðum eggjum þroskast sviflægar lirfur sem nærast á smáum svifþörungum. Lirfurnar myndbreytast og mynda þunna gagnsæja skel. Kræklingalirfa berst með straumum þangað til full myndbreyting hefur átt sér stað. Sviflæga stigið stendur í nokkrar vikur en síðan myndast skel og fóturinn vex og lirfan myndar spunaþræði til að festa sig við undirlag. Lirfan getur nú notað fótinn til sunds og til að færa sig.
Fæða kræklings er örsmáar agnir sem hann síar úr sjónum. Mörg dýr éta krækling, þar á meðal fuglar, krabbar, kuðungar, skrápdýr og fiskar. Aðalóvinir kræklinga við Ísland eru æðarfugl, krossfiskur og krabbi.
Kræklingur er etinn af mönnum og hann er einnig ræktaður til manneldis. Vegna eiturþörunga er kræklinganeysla hættuleg á þeim tímum ársins þegar sjór er hlýr og þörungablómi í hámarki. Almennt er ekki talið öruggt að tína krækling við Ísland frá því í maí og fram í desember. Vegna hættu á skelfiskeitrun hefur Hafrannsóknastofnun Íslands mælt magn eiturþörunga í kræklingi með reglubundnum hætti, og hægt er að nálgast niðurstöður á heimasíðu þeirra.
Kræklingar hafa verið notaðir til að hreinsa sjó af lífrænni mengun af mannavöldum.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.