From Wikipedia, the free encyclopedia
Knútur helgi eða Knútur 4. (um 1043 – 10. júlí 1086) var konungur Danmerkur frá 1080 til dauðadags. Hann var einn af frillusonum Sveins Ástríðarsonar Danakonungs og tók við kórónunni eftir dauða bróður síns, Haraldar hein.
Knútur var mikill stuðningsmaður kirkjunnar eins og faðir hans og Haraldur bróðir hans höfðu verið, styrkti biskupsstólana mjög og reyndi að koma á tíund en það tókst þó ekki. Hann er sagður hafa verið örlátur við fátæka og tekið marga þeirra undir sinn verndarvæng en harður við illvirkja og óeirðamenn og barðist hart gegn sjóræningjum á Eystrasalti.
Knútur vildi endurreisa stórveldi Knúts ríka frænda síns en dönsku höfðingjarnir voru lítt hrifnir af mikilmennskudraumum hans og hann var ekki vinsæll. Hann safnaði saman geysistórum flota í Limafirði árið 1085 - sumir segja um eitt þúsund skipum - og ætlaði að halda til Englands en flotinn fór aldrei af stað því að Knútur átti í erjum á suðurlandamærum ríkisins við Hinrik 4. keisara. Hann lagði sektir á þá sem höfðu gefist upp á biðinni og haldið heim áður en konungurinn gaf leyfi til. Sú ráðstöfun varð mjög óvinsæl og var gerð uppreisn gegn konungi. Hann lagði á flótta en 10. júlí 1086 var Knútur myrtur í kirkju heilags Albans í Óðinsvéum ásamt öllum fylgdarmönnum sínum nema Eiríki góða bróður sínum, sem slapp, en Benedikt bróðir þeirra féll í kirkjunni.
Eiríkur góði hóf strax tilraunir til að fá bróður sinn tekinn í dýrlingatölu. Uppskerubrestur varð eftir dauða Knúts og var hann túlkaður sem vitnisburður um óánægju máttarvaldanna. Knútur var grafinn í dómkirkjunni í Óðinsvéum og þar urðu fljótt ýmiss konar jarteiknir. Árið 1101 var hann tekinn í helgra manna tölu.
Knútur giftist Adelu, dóttur Róberts greifa af Flæmingjalandi. Börn þeirra voru Karl danski, sem einnig var tekinn í helgra manna tölu síðar, Ingrid og Cecilie. Karl var 11 ára þegar faðir hans var myrtur og erfði ekki ríkið, heldur var Ólafur hungur föðurbróðir hans valinn konungur. Adela flúði til Flæmingjalands með börn sín og ólst Karl þar upp og varð síðar greifi af Flæmingjalandi. Adela giftist síðar Roger hertoga af Apúlíu og dó 1115.
Fyrirrennari: Haraldur hein |
|
Eftirmaður: Ólafur hungur |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.