Íslenskt tónskáld, hljómsveitastjóri og píanóleikari From Wikipedia, the free encyclopedia
Jón Leifs (1. maí 1899 – 30. júlí 1968) var íslenskt tónskáld. Kvikmyndin Tár úr steini er byggð á hluta af ævi hans.
Jón Leifs | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fæddur | Jón Þorleifsson 1. maí 1899 |
Dáinn | 30. júlí 1968 (69 ára) |
Uppruni | Húnavatnssýslu í Norðurlandi vestra, Íslandi |
Hljóðfæri | Píanó |
Jón Leifs fæddist sem Jón Þorleifsson á bænum Sólheimum í Húnavatnssýslu á Norðurlandi vestra.[1] Hann flutti til Þýskalands árið 1916 og fór í nám við Tónlistarháskólann í Leipzig. Hann útskrifaðist þaðan árið 1921 sem píanóleikari. Kennarinn hans var Robert Teichmüller. Jón ákvað að sækjast ekki eftir starfsferli sem píanóleikari heldur einbeita sér að tónsmíðum og hljómsveitarstjórn. Samnemandi hans var Ferruccio Busoni sem hvatti hann til að „fara sínar eigin leiðir í tónsmíðum“.[2]
Á þriðja áratugnum stýrði Jón Leifs fjölda tónleika í Þýskalandi, Tékkóslóvakíu, Noregi og Danmörku og varð þannig eini heimsþekkti íslenski hljómsveitarstjóri síns tíma[1] þótt honum tækist ekki að hljóta fasta ráðningu. Á tónleikaferðalagi til Noregs, Færeyja og Íslands með sinfóníuhljómsveit Hamborgar sumarið 1926 stýrði Jón Leifs fyrstu sinfóníutónleikum sem haldnir voru á Íslandi (um var að ræða alls 13 tónleika með fjölbreyttri efnisskrá).[1] Á þessum tíma skrifaði Jón einnig mikið um tónlist og túlkun á henni, bæði á þýsku og íslensku. Frá 1925 til 1928 ferðaðist hann þrisvar til Íslands til að skrá niður þjóðlagatónlist á æskuslóðum sínum í Húnavatnssýslu. Hann birti niðurstöður sínar bæði í íslenskum og þýskum tímaritum.
Jón hóf að semja píanóundirleik við íslensk þjóðlög og varð virkt tónskáld á þriðja áratugnum.[1] Frá og með fjórða áratugnum einbeitti hann sér að því að semja mikilfengleg hljómsveitarverk, en sum þeirra voru ekki flutt fyrr en eftir andlát hans. Mörg af verkum hans voru innblásin af íslenskum náttúrufyrirbrigðum. Í verkinu Heklu lýsti hann eldgosinu í Heklu 1947, sem hann varð sjálfur vitni að. Í verkinu Dettifossi var hann innblásinn af Dettifossi, öflugasta fossi Evrópu. Í Sögusinfóníunni lýsti hann á tónrænan hátt fimm persónum úr Íslendingasögunum.
Árið 1935 var Jón Leifs útnefndur tónlistarstjóri hjá íslenska Ríkisútvarpinu. Honum þótti hins vegar erfitt að koma hugmyndum sínum í framkvæmd hjá útvarpsþjónustunni og sagði því af sér árið 1937 og sneri aftur til Þýskalands.[1]
Jón var einn fárra Íslendinga síns tíma sem var einveldissinnaður og talaði fyrir því í tímaritsgrein í Iðunni árið 1937 að hyggilegast væri að Ísland yrði sjálfstætt konungsríki með eigin konung þegar til sambandsslita kæmi við dönsku krúnunna.[3] Talið er að Jón hafi verið einn þriggja Íslendinga sem gerðu árið 1938 þýska prinsinum Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe tilboð um að verða konungur Íslands eftir að fullu sjálfstæði landsins undan Danakonungi væri náð.[4] Jón hafði ekkert umboð til að gera slíkt tilboð og hugmynd hans hafði því enga stjórnarfarslega merkingu, en prinsinn tók tillögunni þó alvarlega og bar hana meðal annars undir Joseph Goebbels, yfirmann sinn hjá þýska áróðursráðuneytinu.
Jón Leifs kvæntist píanóleikaranum Annie Riethof (11. júní 1897 í Teplitz í Bæheimi - 3. nóvember 1970 í Reykjavík) stuttu eftir útskrift úr Tónlistarháskólanum í Leipzig.[1] Hjónin eignuðust tvær dætur, Snót (1923–2011) og Líf (1929–1947), og settust að í Wernigerode. Þar sem Riethof var gyðingur stóð fjölskyldunni stöðug ógn af ofsóknum nasista frá árinu 1933. Árið 1944 fengu hjónin leyfi til að yfirgefa Þýskaland og fluttu til Svíþjóðar ásamt dætrum sínum. Annie náði aldrei sama árangri og Jón, hún hélt eina tónleika í Magdeburg 1923 og aðra í Salle Pleyel 1928 sem fékk jákvæða gagnrýni frá frönskum fjölmiðlum og var hápunktur ferils hennar.[5] Hjónaband þeirra var þá þegar farið að renna út í sandinn og þau skildu árið 1946. Jón Leifs kvæntist síðar og skildi við sænska konu að nafni Theu Andersson. Þriðja eiginkona hans var Þorbjörg Jóhannsdóttir Leifs (1919–2008). Þau Jón áttu einn son, Leif (1957–2022).
Árið 1945 flutti Jón Leifs aftur til Íslands (og skildi fjölskyldu sína eftir í Svíþjóð). Þar varð hann ötull stuðningsmaður tónmenntunar og listamannaréttinda. Hann talaði meðal annars fyrir staðfestingu Íslands á Bernarsáttmálanum til verndar bókmenntum og listaverkum árið 1947 og tók þátt í stofnun Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) árið 1948.[1]
Árið 1947 varð Jón fyrir þeim harmleik að yngri dóttir hans, Líf, drukknaði á sundi við strendur Svíþjóðar, aðeins sautján ára gömul. Jón var frávita af sorg og orti fjögur verk sem hann tileinkaði minningu hennar,[6] þar á meðal Requiem, sem er talið eitt hans besta verk. Hin verkin voru Torrek Op. 33a, Erfiljóð Op. 35 og strengjakvartettinn Vita et mors Op. 36.
Jón Leifs orti sitt síðasta verk, Hughreysting, Intermezzo op. 66., aðeins fáeinum vikum áður en hann lést. Jón lést úr lungnakrabbameini í Reykjavík árið 1968.
Kvikmyndin Tár úr steini (1995) eftir leikstjórann Hilmar Oddsson fjallar um Jón Leifs á tímum Þriðja ríkisins. Torg í Bergholz-Rehbrücke (í Nuthetal, Þýskalandi), þar sem hann bjó með fjölskyldu sinni frá 1931 til ársins 1944, er nefnt eftir honum.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.