Eiríkur eymuni eða Eiríkur eimuni (d. 18. júlí 1137) var konungur Danmerkur frá 1134 til dauðadags. Hann var frillusonur Eiríks góða Danakonungs.

Thumb
Eiríkur eymuni

Fátt er vitað um ævi Eiríks fyrr en um það leyti sem hálfbróðir hans, Knútur lávarður, var myrtur í ársbyrjun 1131 af Magnúsi sterka, syni Níelsar konungs, föðurbróður þeirra. Eiríkur, sem þá var jarl af Lálandi, hóf uppreisn gegn konungi og næstu þrjú árin sló nokkrum sinnum í bardaga sem Eiríkur tapaði þó alltaf en 1134 tókst honum að fá Össur erkibiskup í Lundi og Lothar keisara í lið með sér og í miklum bardaga sem háður var 4. júní 1134 við Fótvík nálægt Lundi beið her feðganna Níelsar konungs og Magnúsar sterka lægri hlut og Magnús féll en Níels lagði á flótta og var drepinn í Slésvík um þremur vikum síðar.

Eiríkur eymuni var hylltur sem konungur Danmerkur þegar eftir bardagann. Hann settist að í Lundi og gerði bæinn að höfuðstað ríkisins. Hann vann að því að fá Knút lávarð bróður sinn tekinn í heilagra manna tölu til að styrkja tök ættleggs síns á konungdæminu en lét um leið drepa alla hugsanlega keppinauta sem hann gat náð til, jafnvel Harald kesju bróður sinn, sem hafði verið í liði með Níels konungi, og syni hans.

Eiríkur fór í krossferð til Rügen 1136 til að kristna heiðna menn þar og vann bæinn Arkona eftir umsátur. Hann ætlaði í annan leiðangur árið eftir en varð að hætta við vegna vaxandi ólgu í Danmörku. Eiríkur þótti sýna af sér grimmd og ofríki heima fyrir og 18. júlí 1137 var hann drepinn á héraðsþingi í Slésvík; banamaður hans er sagður hafa verið aðalsmaður að nafni Plógur hinn svarti (Sorteplov).

Kona Eiríks var Málmfríður, dóttir Mstislavs stórhertoga af Kænugarði, sem áður hafði verið gift Sigurði Jórsalafara Noregskonungi. Þau áttu ekki börn en Eiríkur átti einn frilluson, Svein.

Viðurnefnið „eymuni“ (eimuni) þýðir sá sem aldrei gleymist (sá sem menn muna ævinlega), sbr. að sólin er kölluð Eygló = sú sem að eilífu glóir.

Heimildir


Fyrirrennari:
Níels
Konungur Danmerkur
(11341137)
Eftirmaður:
Eiríkur lamb


Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.