Akademían
From Wikipedia, the free encyclopedia
From Wikipedia, the free encyclopedia
Akademían var skóli og fræðasetur í Aþenu sem heimspekingurinn Platon stofnaði um 385 f.Kr. Stofnunin var rekin áfram eftir dag Platons allt til ársins 529 e.Kr. en var þá lokað af Justinianusi I.
Sögu Akademínnar má skipta í þrjú tímabil: gömlu Akademíuna, mið-Akademíuna og nýju Akademíuna.
Helstu hugsuðir gömlu Akademíunnar voru fyrrum samstarfsmenn Platons en þeir tóku við stjórn skólans að honum látnum: Spevsippos, frændi Platons, var fyrsti forstöðumaður skólans að frænda sínum látnum og stýrði honum til ársins 339 f.Kr. Þá tók Xenókrates við stjórn skólans til ársins 314 f.Kr. Pólemon tók við af honum og stýrði skólanum til ársins 269 f.Kr. en þá tók Krates við stjórninni og stýrði skólanum til ársins 266 f.Kr. Meðal annarra heimspekinga sem störfuðu við gömlu Akademíuna má nefna Aristóteles, Evdoxos, Herakleides frá Pontos, Krantor og Filippos frá Ópús. Allir þessir hugsuðir voru sammála Platoni um margt en sumir þeirra geta þó ekki talist platonistar nema í víðum skilningi (til dæmis Aristóteles). Spevsippos og Xenókrates reyndu báðir að tvinna saman pýþagóríska talnaspeki og ýmsar hliðar á heimspeki Platons.
Árið 266 f.Kr. varð Arkesilás forstöðumaður Akademíunnar. Þá breyttust áherslur skólans mjög og hann varð efahyggjuskóli. Mörgum af samræðum Platons, einkum þeim elstu, lýkur án neinnar niðurstöðu. Akademísku efahyggjumennirnir töldu að hér væri að finna kjarnann í heimspeki Platons: í raun væri ekki hægt að komast að niðurstöðu um neitt. Þetta skeið skólans er nefnt mið-Akademían. Það einkenndist fyrst og fremst af deilum við stóumenn, þar sem Arkesilás og fylgjendur hans gagnrýndu stóíska þekkingarfræði, sem lýsti því hvernig öðlast mætti óhagganlega þekkingu. Arkesilás færði rök fyrir því að samkvæmt kenningum stóumanna væri ekki hægt að vita neitt en sjálfur tók hann aldrei undir forsendur þeirra og hélt engum fram sjálfur. Lakýdes, Evandros, Telekles og Hegesínos fylgdu í kjölfar Arkesilásar sem stjórnendur Akademíunnar.
Tímabil nýju Akademíunnar hófst árið 155 f.Kr. þegar Karneades varð skólastjóri. Nýja Akademían var enn efahyggjuskóli en þó var áherslumunur á afstöðu Arkesilásar og Karneadesar; samkvæmt sumum túlkunum (þegar í fornöld) hélt Karneades fram einhvers konar sennileikahyggju, sem leyfði að eitthvað þætti sennilegt þótt möguleikanum á fullvissu (og þar með eiginlegri þekkingu) væri ætíð hafnað. Kleitomakkos tók við af Karneadesi og Fílon frá Larissu tók við af honum. Þá tók við Antíokkos frá Askalon, sem að endingu beindi Akademíunni frá efahyggjunni en akademísk efahyggja hafði þá þegar mildast mjög og orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki. Fílon og Antíokkos voru síðustu akademísku heimspekingarnir sem störfuðu innan Akademíunnar sem stofnunar.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.